Hjá Skynró getur þú fundið fræðslu og fengið innsýn í líf fólks með skynúrvinnsluvanda og hvernig hægt er að takast á við skynáreiti í daglegu lífi. Hér verður hægt að finna hagnýtar leiðir til þess að hjálpa bæði börnum og fullorðnum að takast á við skynáreiti.
Skynúrvinnsluvandi (e. Sensory Processing Disorder) er þegar skyntruflanir eru farnar að hafa áhrif á daglegt líf fólks. Skynúrvinnsluvandi getur staðið einn og sér eða verið fylgifiskur annarra raskana, svo sem ADHD, einhverfu og kvíða, svo dæmi séu tekin. Samkvæmt líkani Dunn um skynúrvinnslu má skipta birtingarmyndum skynúrvinnsluvanda í fjóra flokka en þeir eru; sókn í skynáreiti, forðun frá skynáreitum, lág skráning skynboða og viðkvæmni fyrir skynáreitum. Hér fyrir neðan má sjá dæmi um hvernig skynúrvinnsluvandi birtist á ólíkan hátt, athugið að þetta er ekki tæmandi listi!
Þau sem sækja í skynáreiti þurfa aukið áreiti til þess að líða vel og halda einbeitingu. Algengt er að þau séu á iði eða alltaf að fikta í einhverju. Mörg vilja vera í fötum sem falla þétt að líkamanum eða hafa þyngingu. Að hlusta á tónlist eða vera í umhverfi sem gerir mikið fyrir augað hentar þeim afar vel.
Íhlutun felst í að auka áreiti
Þau sem forðast skynáreiti eiga í erfiðleikum með að vera í umhverfi með miklu áreiti. Þau halda sig gjarnan til hlés, forðast mannmergð og hávaða. Þau vilja gjarnan vera í flíkum sem eru miðalausar og með einfalda sauma. Hljóðeinangrun, einfalt umhverfi og dempuð lýsing hentar þeim vel.
Íhlutun felst í að minnka áreiti
Þau sem hafa lága skráningu skynboða gefa skynáreitum lítinn gaum. Þau þurfa gjarnan aukið áreiti til þess að veita umhverfi sínu athygli og eftirtekt. Þau heyra gjarnan ekki þegar til þeirra er kallað, ganga á fólk og hluti sem verður og vegi þeirra og eru jafnvel með háan sársaukaþröskuld.
Íhlutun felst í að auka áreiti
Þau sem eru viðkvæm fyrir skynáreitum þurfa lítið áreiti til þess að taugakerfi kalli á viðbrögð. Ákveðin tegund af hljóði, lykt og áferð geta vakið sterk tilfinningaleg viðbrögð hjá þeim. Þau missa auðveldlega einbeitingu og verða auðveldlega pirruð, sérstaklega í hávaðasömu og björtu umhverfi.
Íhlutun felst í að minnka áreiti
Skynró er hugarfóstur þriggja kvenna sem allar hafa þurft að leita lausna við skynúrvinnsluvanda í lífi og starfi. Teymið samanstendur af mæðrum barna með einhverfu og ADHD og iðjuþjálfa sem sinnir skynúrvinnslumati og veitir ráðgjöf í sínu starfi með börnum.
Við viljum deila spennandi fréttum frá Skynró! Við erum að að bæta síðuna okkar með fræðandi greinum ásamt því að vinna hörðum höndum að því að hanna okkar fyrstu vörulínu!
Vertu viss um að vera á póstlista til að fá allar nýjustu upplýsingar!
Okkar markmið er að á heimasíðunni verði hægt að finna fróðleik um skynjun byggðan á traustum heimildum. Við munum deila reynslu sem mun vonandi vera ykkur innblástur.
Við höfum gríðarlegan áhuga á öllu sem við kemur skynjun og hagnýtum lausnum til þess að gera hversdagsleikann þægilegri.
Við erum alltaf til í spjall, ekki hika við að hafa samband!