Skynúrvinnsluvandi á mannamáli

Skynúrvinnsluvandi

Skynfæri líkamans eru stöðugt að taka við skilaboðum sem taugakerfið ber til heilans og heilinn sér um að túlka og veita viðeigandi svörun. Skynþröskuldur einstaklega með skynúrvinnsluvanda er ýmist of hár eða of lágur sem gerir það að verkum að upplifun þeirra af skynáreitum getur verið frábrugðin upplifun annarra. Svörun einstaklinga með skynúrvinnsluvanda getur svo ýmist of ýkt eða of hlédræg miðað við tilefni.

 

Líkan Dunn um skynúrvinnslu
Líkan Dunn um skynúrvinnslu einblínir á hvernig fólk vinnur úr skynáreitum með ólíkum hætti eftir því hver skynþröskuldur þess er og hvort viðbrögð þeirra séu við skynáreitum séu virk eða hlédræg. Birtingarmyndir skynúrvinnsluvanda eru fjórar, lág skráning skynboða, sókn í skynáreiti, viðkvæmni fyrir skynáreitum og forðun frá skynáreitum. 

Öll þekkjum við einhverja með skynúrvinnsluvanda án þess þó að þekkja hugtakið. Það getur reynst flókið að klóra sig í gegnum flókinn texta um skynjun sem er fullur af orðfæri sem manni er ekki tamt að nota í daglegu tali. Eins og “lág skráning skynboða”, hvað nákvæmlega þýðir það? Í þessari grein munum við reyna að gera skynúrvinnsluvanda skil í máli og myndum!

Skynþröskuldur og viðbrögð
Þegar talað er um skynþröskuld er átt við um styrk áreitis sem þarf fyrir einstakling til þess að verða var við það. Þau sem eru með lágan skynþröskuld verða auðveldlega vör við skynáreiti á meðan þau sem hafa háan þröskuld þurfa mikið áreiti til þess að veita því eftirtekt. Skynþröskuldur einstaklinga er mismunandi en skynúrvinnsluvandi á sér stað þegar fólk er í öðrum hvorum öfgunum. Þ.e. að þurfa mjög lítið eða mjög mikið áreiti til þess að veita því eftirtekt.

Viðbrögðum við skynáreitum má skipta í hlédræga eða virka. Einstaklingur með hlédræg viðbrögð gerir lítið til þess að bregðast við skynáreitum á meðan einstaklingur með virka svörun gerir mikið til þess að taka stjórn á aðstæðum. Til þess að einfalda þetta betur má horfa á samspil viðbragða og skynþröskuldar svona:

Birtingarmyndirnar fjórar

Lág skráning skynboða: Þau sem hafa lága skráningu skynboða gefa skynáreitum lítinn gaum. Þau þurfa gjarnan aukið áreiti til þess að veita umhverfi sínu athygli og eftirtekt. Þau heyra gjarnan ekki þegar til þeirra er kallað, ganga á fólk og hluti sem verður og vegi þeirra og eru jafnvel með háan sársaukaþröskuld.

Sókn í skynáreiti: Þau sem sækja í skynáreiti þurfa aukið áreiti til þess að líða vel og halda einbeitingu. Algengt er að þau séu á iði eða alltaf að fikta í einhverju. Mörg vilja vera í fötum sem falla þétt að líkamanum eða hafa þyngingu. Að hlusta á tónlist eða vera í umhverfi sem gerir mikið fyrir augað hentar þeim afar vel.

Viðkvæmni fyrir skynáreitum: Þau sem eru viðkvæm fyrir skynáreitum þurfa lítið áreiti til þess að taugakerfi kalli á viðbrögð. Ákveðin tegund af hljóði, lykt og áferð geta vakið sterk tilfinningaleg viðbrögð hjá þeim. Þau missa auðveldlega einbeitingu og verða auðveldlega pirruð, sérstaklega í hávaðasömu og björtu umhverfi.

Forðun frá skynáreitum: Þau sem forðast skynáreiti eiga í erfiðleikum með að vera í umhverfi með miklu áreiti. Þau halda sig gjarnan til hlés, forðast mannmergð og hávaða. Þau vilja gjarnan vera í flíkum sem eru miðalausar og með einfalda sauma. Hljóðeinangrun, einfalt umhverfi og dempuð lýsing hentar þeim vel.

Ef við setjum þetta upp í graf getur þetta litið svona út: