Skynofhleðsla

Skynofhleðsla (e. sensory overload) er þegar einstaklingur verður fyrir svo miklu skynáreiti að það veldur gríðarlegum óþægindum og vanlíðan. Skynofhleðsla getur átt sér stað þegar eitt eða mörg skynfærum okkar eru að taka við svo gríðarlegu magni áreita að heilinn á í erfiðleikum með að vinna úr þeim og veita viðeigandi svörun. Skynofhleðsla er oft misskilin sem slæm eða óviðeigandi hegðun hjá börnum enda geta viðbrögð barns sem upplifir skynofhleðslu orðið til þess að þau fái bræðiskast og þá sýnt viðbrögð eins og að öskra, gráta, sparka frá sér eða jafnvel bíta. Með aukinni vitund almennings á skyntruflunum og áhrifum þeirra á líf og líðan barna er hægt að draga úr þessum misskilningi og raunverulega mæta börnum út frá þeirra skynþörfum. 

Skynofhleðsla getur átt sér stað á einu augabragði þegar tiltekið atvik eða áreiti veldur mikilli skyntruflun en einnig geta mörg smærri áreiti safnast saman og samanlögð áhrif þeirra valdið skynofhleðslu. Þegar einstaklingur upplifir skynofhleðslu getur heilinn átt í erfiðleikum með að taka við og vinna úr öllum upplýsingunum sem skynfærin eru að senda honum og það orðið til þess að viðbrögðin sem einstaklingurinn sýnir eru úr takt við tilefni. 

Ímyndum okkur barn sem er að eiga í samskiptum við móður sína eftir skóla en það heyrir suð í viftu, klæjar undan miða á peysunni sinni, finnur einhverja sérkennilega lykt og heyrir hund gelta. Þetta barn gæti brugðist við einfaldri spurningu eins og “hvað gerðiru í skólanum í dag” með því að öskra “kemur þér ekki við” eða “ég nenni ekki að tala um það” – Viðbrögðin eru ekki við spurningunni sjálfri heldur samanlögðum áhrifum skyntruflana. Heilinn á vandræðum með að vinna úr öllum skynáreitunum sem gerir það að verkum að barnið getur ekki tjáð sig með viðeigandi hætti. 

Mismunandi skynáreiti geta valdið skynofhleðslu hjá fólki enda getur það farið eftir skynþröskuldi hvers og eins. Því er mikilvægt að bera kennsl á hvernig aðstæður valda skynofhleðslu hjá þér eða þínum til þess að geta brugðist við með viðeigandi hætti. Með því að kortleggja aðstæður sem vekja upp sterk tilfinningaleg viðbrögð er ýmist hægt að draga úr veru í slíkum aðstæðum eða leita lausna til þess að gera upplifunina bærilegri fyrir þann sem á í hlut.